Litla sög takk. Hvernig ég vel „réttu“ keðjusögina.
- Jon Runarsson
- Mar 27, 2021
- 5 min read

Ég var staddur í Garðheimum fyrir nokkrum dögum síðan að kaupa kjarrsög og lenti þar á tali við afgreiðslumann um verkfæri til skógarhöggs. Ég sagði honum að litla Stihl MS 201 sögin væri það sem allir í okkar skógarhöggsgengi notuðu 90% af vinnutímanum. Afgreiðslumaðurinn varð undrandi þar sem þessi sög selst ekki á suðurlandinu. Fólk vill stærri og öflugri sagir, sagði hann.

Til að koma í veg fyrir einhvern misskilning þá er ég ekkert sérstaklega að predika fyrir Stihl en að mínu mati koma aðeins tvær tegundir af sögum til greina fyrir atvinnu skógarhögg: Stihl og Husqvarna. Eflaust eru einhversstaðar til frábærar sagir frá einhverjum öðrum framleiðanda, en þessi tvö merki eru ráðandi

hér á Íslandi og í þeim löndum sem við berum okkur venjulega saman við.
Ég er að tala um atvinnusagir en ekki hobbý sagir, en að því sögðu myndi ég samt líka kaupa hobbý sagir frá þessum framleiðendum fremur en öðrum.
Atvinna eða hobbý
Fyrsta hugsunin við val á keðjusög ætti að vera um hvort þú þarft atvinnumannasög eða hobbý sög. Ert þú að fara að vinna með sögina í 8 tíma á dag, fimm daga vikunnar, eða ætlar þú að skreppa út öðru hvoru og snyrta til í nágrenni við bústaðinn þinn eða heimilið.
Allar byggingavöruverslanir eru með einhverskonar keðjusagir til sölu og sumar þeirra hræódýrar, en almennt séð er nokkuð góð fylgni á milli gæða og verðs. Það er örugglega hægt að komast upp með að nota ódýrustu sögina á markaðnum ef þú ætlar öðru hvoru að saga niður lítil tré í eldivið, en því meira sem þú stefnir á að nota sögina því öflugri þarf hún að vera og þar af leiðandi dýrari.
Bensín eða batterý
Næsta atriði sem gott er að hafa í huga er hvort þú vilt bensín eða batterís sög. Þróunin í batterísverkfærum síðustu ár hefur verið gríðarleg og nú er svo komið að batterís sagir eru orðnar álíka öflugar og bensín sagir. Bæði kerfin hafa sína kosti og sína galla.
Kostirnir við batterís sagirnar eru:
- þær eru léttar
- þarf ekki að starta þeim
- ekkert bensín sull og olíu bland
- hljóðlátar
Ókostirnir eru þeir að:
- þegar búið er að setja saman pakka með sög, hleðslutæki og batteríi þá eru þær orðnar dýrari en bensín vélarnar.
- batteríið endist álíka lengi og einn tankur af bensíni sem þýðir að í heilan vinnudag þarf c.a. 8 batterí eða að hafa með sér rafstöð til að hlaða þau
Ástæðan fyrir því að ég hef haldið mig við bensín sagir eru þessir tveir ókostir við batterís sagirnar. Á venjulegum grisjunardegi klára ég 8-9 tanka af bensíni á söginni sem eru 3-4 lítrar. Ég get ekki borið með mér 8 batterí fyrir utan kostnaðinn við að kaupa svona mörg batterí og hleðslutæki.
Ég hugsaði mig mikið um þegar ég keypti klifur/arborista sögina mína hvort ég ætti að fara í batterís sög. Hún er að flestu leyti þægilegri í klifur en bensín sögin en þá kom verðmunurinn upp. Bensín sögin kostaði um 100.000kr. en sambærileg batterís sög með hleðslutæki og tveimur batteríum kostaði um 180.000kr.

Ef þú ákveður að kaupa batterís sög er gott að hafa önnur verkfæri í huga sem þú ert nú þegar að nota með batteríum. Margir verkfæraframleiðendur eru farnir að framleiða batterís keðjusagir, t.d. Makita, DeWalt, Millwaukee, Black & Decker, Rioby o.fl. Eigirðu nú þegar verkfæri frá þessum aðilum gæti verið sniðugt að kaupa keðjusög frá sama framleiðanda til að geta notað batteríin á milli. Á hinn bóginn ef þú stefnir á garðlínu þá framleiða Stihl og Husqvarna ýmis verkfæri fyrir það eins og sláttuvélar, laufblásara o.s.fl.
Ending og gæði
Sem atvinnumaður í skógarhöggi, trjáklifri og trjáfellingum vel ég vélar úr atvinnulínum framleiðenda. Þær sagir eru töluvert dýrari en aðrar sagir en endast líka mun lengur og minni líkur á að þær bili. Bilanir og vesen á tækjum getur reynst mér mjög dýrkeypt því ég vinn oftast á svæðum þar sem tekur langan tíma að ná í varahluti eða þjónustu. Ég reyni að halda mig við eitt merki til að einfalda kaup á rekstrarvörum og varahlutum ásamt því að geta nýtt hluti úr einu verkfæri í annað ef mig vantar varahlut. Að því sögðu myndi ég ekki hika við að kaupa sög frá öðrum framleiðanda ef hún hentaði betur í það sem ég væri að gera.
Stihl og Husqvarna eru þau merki sem ég hef notað lang mest og finn ég engan mun á gæðum. Hinsvegar er töluverður munur á hvernig þær eru hannaðar út frá jafnvægi (balance) og hvernig er að vinna með þær. Það getur verið stór punktur fyrir suma að þeim líður betur að vinna með aðra tegundina frekar en hina. Mér finnst þetta ekki skipta máli þar sem báðar tegundirnar eru vel hannaðar og ég venst á mjög skömmum tíma hvorri sem er. Stóra atriðið fyrir mig er þyngdarmunurinn á þessum sögum á móti afli.
Verkfæri sem hæfir verkefninu

Gerum okkur grein fyrir því að við búum á Íslandi og trén hér eru ekki í sama stærðarflokki og í Svíþjóð eða Kaliforníu. Þess vegna þurfum við yfirleitt ekki stærstu sagirnar sem fást á markaðnum. Einhverjir eru þó að vinna í reitum með stóru sitkagreini og stafafuru, eða að fella stór og breið tré í görðum, og þurfa því sagir sem keyra stór sverð, en það er frekar undantekning en regla.
Fyrir mig og mína félaga, sem vinnum mest við fyrstu grisjun á lerkiskógum á norðurlandi, er Stihl Ms 201 með 12“ sverð frábær sög. Lítil, létt og nægilega aflmikil til að fella 90% af því sem við erum að vinna í. Stihl Ms 241 er svo sögin sem við notum í reiti með stærri trjám. Eldgömul Stihl Ms 261 er svo dregin fram í algerum undantekningar tilvikum þegar við lendum í risavöxnum (á íslenskan mælikvarða) trjám í görðum.

Aðalástæðan fyrir því að ég vel Stihl umfram Husqvarna er þyngdarmunurinn sem kemur fram í töflunni hér fyrir ofan. Stihl hefur náð mjög góðum árangri með sagir sem eru öflugar og léttar. Eftir að hafa unnið í yfir 15 ár í skógarhöggi og þar af mest við stór grisjunarverkefni, ásamt því að vera kominn ískyggilega nálægt fimmtugu, kann ég orðið mjög vel að meta létt og þægileg verkfæri.
Husqvarna er ekki með neitt svar við Stihl Ms 201 (1,8kw á 3,9kg). Þegar við skoðum stærri sagirnar þá skilar Stihl Ms 241 mér 2,3kw á 4,5kg, en ég þarf að fara í Husqvarna 450E til að fá sambærilegt afl en þá er sögin orðin 5,1kg. Einhverjum finnst kannski 600gr. munur lítill en þegar maður fellir 3-500 tré á dag muna þessi 600gr. mjög miklu fyrir bak og axlir til lengri tíma.
Lengd á sverði
Þessari pælingu er fljót svarað. Sverðið á að vera eins stutt og þú kemst upp með. Það minnkar hættu á slysum, er léttara og mun auðveldara að stjórna því á allan hátt. Öðru hvoru fást ódýrar keðjusagir í verslunum með 18" (46cm.) löngu blaði sem langt út fyrir það sem flestir þurfa. Það er hægt að vinna með keðjusög báðum megin frá við tréð og því er vinnulengdin næstum tvöföld lengdinni á sverðinu. Flestar atvinnusagir eru seldar með 12" (30cm.), 14" (36cm.) eða 16" (41cm.). 14" sverð dugar til að fella tré sem er að ummáli um 70cm. og svo stór tré eru í minnihluta hér á landi.
Eins og ég sagði hér ofar þá vinnum við félagarnir 90% af okkar vinnu með 12" sverði en höfum venjulega með okkur sög með 14" ef við skyldum lenda í stærri trjám.
Lokapunktur
Aðalpunkturinn er ekki hvaða tegund þú kaupir heldur að þú kaupir sög sem hentar þér og þínu verkefni. Að vafra um í 15 – 20 ára gömlum lerkiskógi með Stihl Ms 261 eða Husqvarna 550xp, með 18“ sverði, er bara kjánalegt og ekkert töff. Svona eins og að kaupa sér 44“ breyttan Land Rover til að mæta í vinnu í Borgartúninu.
Tenglar



Comments