top of page
Search

Hvað kostar að fella tré / ösp?

  • Writer: Jon Runarsson
    Jon Runarsson
  • Feb 9, 2022
  • 4 min read

Updated: Mar 20, 2022

Við fáum mjög oft þessa spurningu, hvað kostar að fella tré, og oftar en ekki er verið

að spyrja um fellingar á öspum.

ree

Því miður er nokkurnvegin ómögulegt að svara þessari spurningu án þess að skoða aðstæður og er orðið nokkurnvegin staðlað svar hjá okkur: einhverstaðar á milli 40.000 og 250.000 kr., verður ekki lægra en gæti orðið hærra.


Í þessum pistli ætla ég að reyna að gera grein fyrir því af hverju við getum ekki gefið verð í trjáfellingar án þess að skoða verkið. Einnig tengi ég nokkur myndbönd við greinina sem dæmi um hversu misjöfn verkin eru.

ree

Þetta á við um fellingar á einu eða fáum trjám í görðum. Allt aðrar reglur gilda um magnfellingar og fellingar í skógi.


Það er algengur misskilningur að hæð trjáa sé aðalatriðið við að meta hversu dýrt sé að fella tré. Hæðin hefur vissulega áhrif en hér fyrir neðan eru fjórir þættir sem eru mun mikilvægari.


Umfang og vöxtur trjáa

Það hefur auðvitað áhrif hversu margar greinar eru á tré og það getur verið mjög mikill munur á því. Einnig er spurning hversu stórar og sverar greinarnar eru. Annað atriði sem hefur mikil áhrif er hversu margstofna tréð er og yfirleitt er fljótlegra að vinna beinvaxið tré en kræklótt.

Ef bolurinn er mjög sver verður verkið mun erfiðara og getur jafnvel þurft krana til að koma honum í burtu.


Staðsetning trjáa

Þegar búið er að fella tré þarf að fjarlægja það og gefur auga leið að það munar miklu um hvar tréð er staðsett. Tré sem er staðsett þar sem er auðvelt að koma að flutningstækjum er mun fljótlegra að vinna en tré sem er staðsett langt inni í garði, á bakvið hús og þarf að flytja í litlum bútum út úr garðinum.


Hvað er í kringum trén

Þetta atriði er eitt stærsta atriðið fyrir okkur í sambandi við verðlagningu. Fyrsta

ree

spurningin sem við spyrjum okkur að þegar við lítum á tré er hvort við getum fellt það í heilu lagi án þess að valda hættu eða skemmdum á umhverfinu. Við þurfum að skoða hvaða mannvirki og gróður eru í kring. Um leið og við sjáum að við getum ekki fellt tréð örugglega í heilu lagi þurfum við að klifra upp tréð og saga það í búta. Til að flækja málið enn meira er ekki alltaf hægt að láta bútana og greinarnar detta niður og þá þarf að slaka þeim niður með línum. Að klifra og saga tré er mjög erfitt og hættulegt starf ef það er ekki gert rétt og verður að vinnast með réttum vinnubrögðum og búnaði. Þetta ásamt línuvinnu við að slaka niður bútum og greinum er bæði flókið og tímafrekt.


Ástand trés

Dauð tré, veik og skemmd geta valdið miklu flækjustigi við fellingu. Ef tréð er mjög illa farið getur verið mjög erfitt að saga það og stýra fallinu. Eins er ekkert víst að það sé óhætt að klifra upp slíkt tré. Einnig geta tré sem hafa fallið eða hálf-fallið í slæmum veðrum verið mjög erfið í vinnslu. Það getur þurft að binda tré upp á meðan þau eru söguð, nota kranabíla, vinnulyftur eða önnur vinnubrögð sem seinka öllu verkinu.



Hér fyrir neðan eru þrjú mjög mismunandi verk sem ég ætla að útskýra hversu mikill tími fór í og af hverju.


Fimm aspir úr trjáröð

Verkefnið var að fella fimm ca. 17m. háar aspir úr 11 aspa röð. Trén voru með miðlungs stórar greinar og ekkert rosalega mikið af þeim. Þau voru mjög vel staðsett svo við höfðum nóg pláss til að fella þau í heilu lagi. Aðkoma fyrir traktor með timburvagn til að sækja efnið var mjög þægileg.

Í þessu verki voru tveir menn í samtals 16 tíma og um þrír tímar á traktor með timburvagn.


Ein ösp í gegnum pall og umkringd mannvirkjum

Þessi ösp var ekki nema um 16m. há en gríðarlega umfangsmikil og staðsett á erfiðum stað. Tréð stóð í gegnum sólpall, upp við hús og bílskúr og teygði sig yfir bæði. Í tæplega tveggja metra hæð skiptist það upp í þrjá stofna sem allir voru með mikið af greinum. Vegna staðsetningarinnar var ekki hægt að fella tréð í einu lagi. Við urðum að klifra tréð og saga af því greinarnar og síðan slaka þeim öllum niður með línum. Að lokum voru stofnarnir bútaðir niður og hífðir burt með kranabíl.

Að þessu verki komu þrír klifrarar, tveir starfsmenn á jörðinni og kranabílstjóri. Samtals 15 tímar í klifur, 26 tímar í vinnu á jörðinni og 4,5 tímar í kranavinnu.


Eitt grenitré á erfiðum stað

Næstum allt var erfitt við að fella þetta grenitré. Tréð var um 20m. hátt með mikið af stórum greinum. Að auki stóð það langt fyrir aftan hús og hátt upp í brattri brekku. Við þurftum að senda greinarnar og toppinn eftir zip línu niður á svæði milli húsa við götuna. Stofninn var of stór og þungur til þess að nota zip línuna og ekki var óhætt að rúlla honum niður þar sem töluverð hætta var á að valda skemmdum á húsum. Við tókum því ákvörðun um að spila stofninn í nokkrum bútum upp í gegnum skóginn fyrir ofan, þangað sem við gátum náð honum með timburvagni.

Að þessu verki komu þrír menn og tveir traktorar. Samtals voru þetta 7 klst. í klifur, 14 klst. í vinnu á jörðinni og 4 klst. traktorsvinnu.


Vonandi skýrir þessi pistill ásamt myndböndunum af hverju fjöldi og hæð trjáa er ekki endilega ráðandi í verðlagningu á trjáfellingum. Þó þessi atriði hafi áhrif þá eru það umfang og staðsetning sem ráða mestu. Eitt miðlungshátt tré getur í raun kostað meira í fellingu en fimm hærri tré.


Ef þið hafið spurningar þá ekki hika við að senda okkur tölvupóst á skogarmennehf@gmail.com eða á Facebook messenger.

 
 
 

Comments


bottom of page