top of page
Search

Fimm frábærar skógarupplifanir á Akureyri

  • Writer: Jon Runarsson
    Jon Runarsson
  • May 4, 2023
  • 3 min read

Akureyri er ekki bara gullfallegur bær með einmuna veðurblíðu allt árið um kring. Þar eru líka fjölmargir afþreyingar möguleikar sumar sem vetur. Bærinn er mjög gróðursæll með miklum trjágróðri sem setur áberandi svip á bæinn.

Líf og tilvera okkar Skógarmanna snýst um tré og skóga og höfum við mikið unnið við grisjanir og snyrtingar á skógarsvæðum bæjarins. Það er því ekki úr lagi að við mælum með frábærum afþreyingarmöguleikum sem byggjast á eða eru tengdir skógum og trjágróðri.



Zipline Akureyri, www.zipak.is

Gleráin rennur í gegnum Akureyri og er falleg

ree

gönguleið upp með henni. Ofarlega í bænum rennur áin í gullfallegum skógi vöxnum gljúfrum og þar er Zipline Akureyri með fimm sviflínur sem krossa ána fram og til baka.

Zipline Akureyri er með aðstöðu í gamla leikskólanum Pálmholti rétt við hliðina á brúnni á Hlíðarbraut yfir Glerána. Þaðan er um þriggja mínútna ganga niður að fyrstu sviflínunni. Þar festa leiðsögumenn fólk við línurnar með öryggisbeltum og hjólum og senda þau svo yfir ána eftir stálvírum. Þetta er stórskemmtileg afþreying fyrir alla fjölskylduna, bæði spennandi og gullfallegt. Sjónarspilið að ganga út úr skógi, fram af kletti og svífa yfir ána og inn í skóginn hinu megin er alveg magnað.

ree

Við Skógarmenn höfum séð um að grisja skóginn í kringum sviflínurnar ásamt því að smíða palla og leggja stíga. Við höfum reynt að nýta sem mest timbur af svæðinu og eru allir pallarnir nema einn reistir á grindum smíðuðum úr grisjunarvið af staðnum. Dekkið ofan á tveimur pöllum er smíðað úr reynivið sem kemur úr bænum og munu í framtíðinni allir pallarnir verða klæddir með timbri af svæðinu.


Frisbígolf, https://fga.is/

Frísbígolf nýtur vaxandi vinsælda á Íslandi enda frábær afþreying fyrir alla. Þetta getur verið allt frá notalegri stund með vinum og fjölskyldu upp í alvöru keppni þar sem keppendur fylgja reglum sem svipa til reglna í golfi en skipta út kylfum og kúlum fyrir frisbídiska.

Á Akureyri eru nokkrir frisbígolf vellir. Það eru litlir vellir á Hamarskotstúni og Eiðsvelli en stórir 18 holu vellir eru að Hömrum við Kjarnaskóg og á milli háskólans og sviflínanna í Glerárgili.


Kjarnaskógur, www.kjarnaskogur.is

Kjarnaskógur er aðalútivistavæði Akureyringa, hvort sem það er vetur eða sumar.

ree

Þar eru grillskálar, leiksvæði, strandblakvellir, gönguleiðir og auðvitað stórkostleg skógar náttúra. Það er frábær dagur að skreppa í skjólið í Kjarnaskógi, ganga um svæðið, leika sér, sjá kanínurnar skjótast um og slaka á. Á veturna leggur Skógræktarfélag Eyfirðinga metnaðarfullt göngu-skíðaspor um stíga skógarins sem enginn má missa af.


Skógarböðin, www.forestlagoon.is

Skógarböðin voru opnuð vorið 2022 og nýta heita vatnið sem rennur úr

ree

Vaðlaheiðagöngum. Sundlaug Akureyrar er frábær vatnaskemmtigarður en tilfinningin er allt önnur í Skógarböðunum. Þau eru byggð inn í Vaðlaskóg gegnt Akureyri með fallegu útsýni yfir til bæjarins. Böðin sjálf eru mjög vel heppnuð með fallegum arkitektúr og lýsingu. Svo skemmir ekki fyrir að það eru tveir barir á staðnum til að gestir geti svalað þorstanum og frábær veitingastaður til að eiga notalega stund eftir baðið. Fyrir þá sem eru meira að leita að snöggum bita til að seðja sárasta hungrið þá eru Bessabitar yfirleitt með matarvagn fyrir utan þar sem hægt er að fá eðal hamborgara.

Okkur Skógarmönnum finnst við eiga pínu í böðunum þar sem við sáum um að fella skóginn fyrir stíginn og vatnsleiðsluna frá Vaðlaheiðargöngunum að Skógarböðunum.


Lystigarðurinn er alger perla í hjarta bæjarins, staðsettur á milli sjúkrahússins og Menntaskóla Akureyrar. Gullfalleg vin þar sem hægt er að fræðast um tré og plöntur ásamt því að börnin geta hlaupið um og sullað í gosbrunnum á heitum dögum.

Eitt fallegasta kaffihús landsins, Kaffi Lyst, er í Lystigarðinum. Þar er boðið upp á úrvals kaffi, súkkulaði og bjóra frá íslenskum framleiðendum, náttúruvín, súrdeigsbrauð og fisk og grænmeti í hádeginu. Þetta er frábær staður til að slaka á, njóta góðra veiga á meðan börnin skoppa og leika sér á grasflötinni fyrir framan.


Ljósmyndir: Jón Heiðar Rúnarsson, @nordanheidar

 
 
 

Comments


bottom of page